2.6.2008 | 13:57
Kaupmenn í Höfuðborginni
Hjónakornin eru komin heim eftir eina "örferðina" til Höfuðborgarinnar.
Það er fastur liður í ferðum okkar, að kíkja í gluggana hjá þeim Ara og Fjólu, en við leggjum oft af stað síðdegis og komum á áfangastað seint að kvöldi. Fyrst er mætt á gististað, svo er farið sem leið liggur að verslunargluggunum. Helst er farið næsta dag eða á opnunartíma!
Ari og Fjóla eru kaupmenn við stígana, Klappar- og Skólavörðu-. Undanfarinn rúman áratug höfum við farið margar ferðir í antikverslanir, en upp á síðkastið meira ánægjunnar vegna Við sjáum oft eitthvað sem okkur langar að skoða betur og reynum þá að spjalla við kaupmennina í leiðinni. Þau taka vel á móti okkur og heilsumst við alltaf eins og góðra kunningja er siður Hjá þeim höfum við fundið margt góðra muna sem prýða nú Faktorshúsið. Þar þyggjum við stundum kaffisopa og þá gjarnan úr fínum postulínsbollum.
Í versluninni hennar Fjólu, í fyrradag. Fjóla og frænka hennar.
Maður frænkunnar og minn, gæða sér á kaffi úr postulínsbollunum hjá Fjólu.
Fyrir nokkrum árum voru fleiri antikverslanir í Reykjavík, en þeim hefur fækkað mikið. Þegar við vorum mest að leita að húsgögnum var tiltölulega auðvelt að finna það sem við vorum að leita að, en "nú er öldin önnur"!
Þegar við keyptum húsið var enginn húsbúnaður í því. Nú er það allt búið antikhúsgögnum, einnig keyptum við 3 viðarofna (kamínur), en samkvæmt greinargerð sem við fengum höfðu upphaflega verið 3 slíkir í húsinu . Tvo ofnana keyptum við í Bergen, en húsið kom tilsniðið þaðan 1788. Á báðum ofnunum má sjá letrað BERGEN, enda völdum við þá m.a. með það í huga. Þriðju kamínuna keyptum við í Reykjavík, hún er í svítunni.
Þegar við höfum sýnt húsið áhugasömum gestum og ferðalöngum eru 2 spurningar sem við erum nær undantekningarlaust spurð:
1. Voru svo öll þessi húsgögn í húsinu?
2. Hvar fenguð þið öll þessi húsgögn?
Svörin:
1. Nei það voru engin húsgögn í húsinu.
2. Flest húsgögnin fengum við í antikverslunum í Reykjavík, nokkur í Kolaportinu, ÖRFÁ á Ísafirði, einn skápur er sérsmíðaður af smiðnum, eiganda Faktorshússins. Sá skápur er eins og allt annað í húsinu, með "sál og sögu".
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.