20.6.2008 | 01:27
Langafi Grieg og tengingin við Hæstakaupstað
Í dag kl. 12:10 í Bryggjusal Edinborgarhússins:
Håkon Austbø, píanó
Þriðju hádegistónleikar Háskólaseturs Vestfjarða eru tileinkaðir norska tónskáldinu Edvard Grieg. Norski píanóleikarinn Håkon Austbø ætlar að leika hluta úr op. 66 og 72 eftir Grieg og um leið reyna að setja hina norsku þjóðlagahefð í evrópskt samhengi, líkt og Grieg gerði fyrstur manna.
Tónskáldið Edvard Grieg
Við hjónin fórum á tónleika við heimili Grieg á Troldhaugen 1999, en það var ekki fyrr en með grúski mínu árið 2005 sem ég uppgötvaði tenginguna á milli hans og Björgvinjarmannanna!
Ég var mjög ánægð með þetta, hafði áður ákveðið að Grieg væri "tónskáld" hússins, þar sem hann var ekki einungis norskur heldur frá Bergen!
En uppgötvun mín var þessi:
Hr Janson, forsprakki Björgvinjarmanna sem reistu hús í Hæstakaupstað á Ísafirði 1788 og næstu ár þar á eftir. Hann var langafi Grieg.
Björgvinjarmennirnir komu einnig við sögu í Bolungarvík.
Janson langafi Grieg átti þennan herragarð í Bergen og bjó þar
Herragarðurinn hefur verið opinn sem safn frá 1993, með garði í 18. aldar stíl, þar eru m.a. styttur.
Við hjónin fórum í aðra "pílagrímaferð" okkar til Bergen s.l. haust og létum þá opna fyrir okkur safnið, þar sem það er einungis opið yfir sumartímann, nema fyrir hópa. Ég hafði samband við forstöðumann safnsins, sagði hvaðan við kæmum og frá tengingunni, þá vorum við boðin velkomin að kíkja á staðinn.
Það var mjög skemmtileg tilfinning að vera loksins komin á þennan merkilega stað og ganga með leiðsögn um alla bygginguna og garðinn.
Flokkur: Menning og listir | Breytt 21.6.2008 kl. 09:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.