29.7.2008 | 16:25
NÓI ALBINÓI - frá sögusviðinu
Ég hef verið í þeirri aðstöðu s.l. 19 ár að geta "tekið púlsinn" hjá ferðafólki á Ísafirði.
Það hefur oftar en ekki komið í ljós frá útgáfu kvikmyndarinnar "Nói Albinói" að erlendir ferðamenn hafa komið gagngert á Norðanverða Vestfirði til að sjá staðina þar sem myndin var tekin. Margir þeirra hafa rætt um myndina við mig, ég hef sagt þeim frá stöðunum og hvert þeir geti farið til að sjá "sögusviðið". Þessa helgi er einmitt einn þessara aðila staddur hér, hann kom hingað fyrst í desember 2007, næst kom hann í febrúar 2008 og aftur núna. Hann er "kolfallinn" fyrir Vestfjörðum og vill gefa út ljósmyndabók um Vestfirði.
Tvisvar hefur unnusta hans komið með honum og hélt hún tónleika í Hömrum s.l. laugardag, en hann var með ljósmyndasýningu þar á föstudagskvöldið. Hann ákvað að skilja myndirnar eftir í Hömrum og hanga þær því væntanlega uppi eitthvað áfram. Síðar um kvöldið gengum við nokkur saman og gafst honum þá tækifæri á að berja augum "bankann úr Nóa Albinóa", einnig var honum sagt frá nokkrum persónum sem komu fram í myndinni og tengslum þeirra við Ísafjörð og fólkið sem hann er búinn að kynnast þar.
Parið skoðar möguleika á gistingu fyrir sunnan í "heita reit" Faktorshússins, Hæstakaupstað
Kokstuleg tilviljun, skemmtiferðaskip í Sundahöfninni, Ísafirði, finnskt, frá heimabæ parsins
Maðurinn leigði sér hjól og lét sig ekki muna um að fara á því til Bolungarvíkur, þar óð hann út í sjó til að taka myndir af klettum. Honum finnst grjótið hérna frábrugðið því sem hann hefur séð í landinu sem þau búa í, hér sé eins og það "spretti upp úr jörðinni", en þar eins og þeir hafi "dottið niður" Eftir þetta hjólaði hann 2svar í Bónus og daginn eftir, inn í Súðavík.
Á sunnudaginn skruppum við á Þingeyri, þar sem brottför þeirra var ekki fyrr en undir kvöld. "Bókabúðin" þar er orðin óþekkjanleg miðað við útlit hússins í myndinni, en núverandi eigandi hefur unnið að endurbótum þess undanfarin misseri.
Þegar komið var til Þingeyrar var hann ekki lengi að taka við sér og hlaupa yfir götuna til að skreppa í sjoppuna "hans Nóa albinóa"! Skömmu síðar kom hann til baka með sunnudagsmoggann, en þar var umfjöllun um þau og maltflösku í annarri hendinni.
Í húsinu fyrir ofan "bókabúðina" var líka tekið upp atriði í myndinni, en við fórum aðeins inn í það, enda maki minn verið þar mörgum stundum og var þar staddur.
Við enduðum ferðina á Flateyri, en þar gat hann kíkt inn í "ekta" bókabúð. Þeim var síðan boðið upp á pylsur með öllu, en það var greinilega alveg ný upplifun
Það er ótrúlegt hvað margir hafa séð Nóa Albinóa og eignast myndina. http://www.youtube.com/watch?v=4l1Tgx2twDw
Ég á smá bút sem ég tók upp á myndband, þegar verið var að kvikmynda atriðið, þar sem Nóa var hent út af ballinu, "hin hliðin á málinu", áttaði mig á því, þegar ég sá bíómyndina.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Vestfirðir eru auðvitað ólíkir öllu sem Evrópubúar þekkja....landslagið þar og kyrrðin eiga eftir að verða verðmætari með tímanum...........bara ef ykkur ber gæfa til að hafna olíuhreinsunarstöð
Hólmdís Hjartardóttir, 30.7.2008 kl. 10:47
Þetta eru verðmæti, ég geri mér fulla grein fyrir því! Ég hef átt mikil samskipti við ferðamenn, erlenda sem innlenda s.l. 19 ár og hef lært enn betur að meta það sem hér er. Það eru mikil forréttindi að búa á stað sem þessum og hér er margt sem erlendir ferðamenn "anda á öndinni yfir". Ég er alveg óþreytandi við að benda fólki á ýmislegt sem hér er að finna og held ég tiltaki einmitt oft það sem heimamönnum er ekki hugleikið. Reynslan hefur kennt mér að það sem er hversdagslegt í okkar huga eru undur og stórmerki fyrir aðra Ég er alltaf eins og "túristi" hér heima, ferðast helst um Ísland, mér finnst það bjóða upp á endalausa möguleika, margt að sjá og upplifa. Landslagið er fjölbreytt, enginn landshluti eins og annar. Vestfirska landslagið kemur á óvart, ekki síst Íslendingum, sem hafa alltaf átt eftir að koma hingað. Það er ekki með nokkru móti hægt að átta sig á hvaða hugmyndir fólk hefur um þetta svæði, en þær eru greinilega oft langt frá því sem er. Upplifunin leynir sér oft ekki, undrun og hrifning Ferðaþjónar hér, voru um tíma með þessi slagorð: "nær en þig grunar", "best varðveitta leyndarmálið" og svo var einn hópur sem tók sig til og kallaði sig "vini veganna". Ég hef átt í mikilli baráttu við þá sem horfa á olíuhreinsunarstöð sem "hið eina rétta", svo og svo mörg störf og annað eins af "afleiddum störfum". Að sjálfsögðu þurfum við eins og margir staðir utan Höfuðborgarsvæðisins á fjölbreyttara atvinnulífi að halda, mótvægisaðgerðir, en ég held að við þurfum að "flýta okkur hægt", staldra við og sjá það sem við höfum, nýta tækifærin sem eru í því. Það er "glöggt gestsaugað", hef oft orðið vör við það. Margir skilja ekki hvers vegna þetta og hitt sé ekki með ákveðnum hætti. Vonandi ber okkur gæfa til að skila umhverfinu og menningunni sómasamlega af okkur til komandi kynslóða.
Faktor, 30.7.2008 kl. 12:01
anda á öndinni yfir! Átti auðvitað að vera: "standa á öndinni yfir"!
Faktor, 30.7.2008 kl. 12:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.